Dekurnudd - EÐA HVAÐ!!!

Dagurinn byrjaði á ósköp venjulegan hátt, koma börnunum í skólann, manninum í vinnuna og sjálfri mér á fætur, morgunmatur, morgunæfingar, skipuleggja daginn o.s.frv.
Stuttu eftir að þessum daglegu verkum var lokið - hringir síminn.... Hæ (maðurinn kominn í vinnuna og farinn að sakna mín strax - sætt). Hæ sjálfur segi ég... Pantaði fyrir þig nudd seinni partinn í dag... :o) NUDD!! Já, þú átt það svo skilið - þegar þú kemur heim verð ég búinn að svæfa börnin og við höfum svona kósí kvöld... Æði, jú gott og gaman.. Hvenær er mæting? Segi ég nokkuð glöð og fer að láta mér hlakka til.....

Dagurinn leið eins hratt og aðrir dagar virðast gera, skilaði af mér verkefni sem var löngu komið á tíma og var þar af leiðandi aldeilis glöð og kát með afrakstur dagsins og yfirvofandi "nudd"!

Maðurinn kominn heim, aldeilis stoltur yfir að hafa fengið þessa snilldarhugmynd, hálf glottandi af sjálfsánægju... úff, ef hann hefði aðeins vitað hvað í vændum var!!!

Ég var mætt á slaginu, ekki mínútu fyrr (veit, þarf að taka mig á í stundvísinni) - fékk fínt handklæði og slopp og var vísað á klefann/nuddstaðinn.

Fór úr fötunum en hélt þó nærfötunum, var ekki viss. Gekk fram í fína sloppnum og hitti þar NUDDARANN. Hann heilsaði mér á bjagaðri ensku (veit ekki með þig, en þegar fólk talar bjagaða ensku við mig dett ég eiginlega í sama gírinn og svara á svipuðum nótum).

Hann fór með mig í nudd klefann og sagði "take off your cloths" - Eh, cloths, I mean, shall I take my bra off? Yes, everything! Úff, þarna var ég komin með svona óvissusting í magann, hef oft farið í nudd áður og aldrei verið neitt vandræðalegt FYRR EN NÚNA. Ég meina, ég er engin tepra og ekkert spéhrædd, þokkalega sátt við líkama minn EN ég ætlaði sko ekki að fara að liggja BER þarna á bekknum og láta þennan örugglega ágætis mann nudda mig. Nuddarinn sagðist ætla að gefa mér smá tíma til að fara úr og leggjast á magann - sjúff, kannski yrði þetta bara allt í þessu fína. Ég fór úr sloppnum og brjósthaldaranum og lagðist á magann á bekkinn, með andlitið ofaní gatið og breiddi handklæðið/teppið yfir mig. Hann kom inn... Are you relaxed? Am I, ehhh, (hikandi) yes... Good - then I start... Hann náði sér í olíu, fletti af mér ábreiðunni og tók fast í tærnar á hægra fæti og byrjaði að toga í tærnar á mér... hélt svo fast um tærnar á meðan hann kleip og potaði í hælinn og ilina... (hik komið á mig en lá þó kyr). Manngarmurinn hélt áfram þessum tilþrifum, kleip mig í kálfann, lærið og hélt svo áfram upp rassinn - TOGAÐI nærbuxurnar UPP í XXXX - sko, báðum megin...

Þarna voru liðnar svona 6-7 mínútur af tímanum og ég var alvarlega að íhuga að standa upp og segja (mjög kurteisislega) I just remembered that I have to be somewhere else, now, at this moment, go.... EN nei, lá eins og illa flökuð skata áfram og lét manninn um sína vinnu...

Relax your body.... Exhale.... hélt hann áfram á meðan hann þjösnaðist á fótunum mínum..... og ég alveg afskaplega meðvituð um staðsetningu nærbuxna minna, úff, átti afskaplega erfitt með andardrátt... var eiginlega alveg komin að því að hlæja EÐA gráta, er ekki viss.

Svo færði hann sig ofar... að rasskinnunum og staldraði þar við í örugglega 13 klukkustundir - nei líklega hefur tíminn verið styttri en mér leið þannig. Sekúndurnar voru alveg hræðilega langar... hann nuddaði og kleip og teygði og togaði bossann minn og ég var orðin alveg hand viss um að kallinn minn hefði hringt í Strákana og að þetta væri einhverskonar grín sem færi alveg að taka enda... AM I HARD?? (ok, ég veit að líklega hefur hann átt við hvort þetta væri of fast en,..... ) ! Sá/sú sem hefur legið á maganum á meðan önnur manneskja hefur í frammi þessar athafnir við sitjandann skilur hvað ég á við þegar ég segi að þegar nuddað var í ákveðna átt, togaðist í sundur svæði sem mann langar ekkert svo mikið að togist í sundur, eða þannig, hehemm... ENDALAUST... ég reyndi að berjast við að spenna þann hluta líkamans sem var að togast í sundur á meðan hann þusaði Relax your body, exhale (að mér þótti heldur of nautnalega þegar þarna var komið sögu) Your skin is beautiful.... mig var farið að langa til að borast ofaní bekkinn og hverfa....

Loksins hætti þetta rassanudd og hann breiddi yfir fæturnar... ég fór að geta "relaxað my body" - í nokkrar sekúndur..... Hann færði sig hinum megin við mig, lét hendurnar með síðunum, kippti ábreiðunni niður á tær og staldraði aðeins við og sagði... DO YOU MIND? (hugs hugs, um HVAÐ er hann að tala) svo reif hann nærbrækurnar niður ... Ég reyndi af veikum mætti að halda í þær með vísifingrum beggja handa, en hann hafði betur og nærbuxurnar á miðjum lærum... Hvað átti ég að gera!!!? Ég veit, segja eitthvað, gera eitthvað eða bara fara en nei nei, ég lá þarna algjörlega máttlaus og ráðþrota... Nuddarinn hélt áfram að tala, Relax your body, exhale - garg... ég gat ekkert slakað á, með nærbrækurnar á hælunum (so to speak) og ókunnungann mann standandi yfir mér, nuddandi höndunum saman og slettandi olíu yfir mig alla, óvart held ég...(með hljóðunum sem því fylgir) endalaust með einhverjar frekar ómögulegar spurningar, AM I HARD... Líkaminn minn var sko aldeilis ekki á því að slaka á, onei, ég var algjörlega aðframkomin af stressi, HVAÐ gerist næst??? og svo hófust ósköpin... Hann byrjaði að nudda - Á MÉR RASSINN - (þarna var ég farin að halda ofaní mér andanum).... Relax your body, exhale... OMG ef hann segir þetta einu sinni enn þá.... æ ég veit ekki hvað, held líklega bara áfram að liggja þarna og láta sem allt sé í besta...

Is this good?? (úff, what to say what to say) - MMMM sagði ég, gat ekkert annað sagt.... en fékk svo snilldarhugmynd (að mér fannst á þeirru stundu) I could sleep (guð minn almáttugur, hvað var ég að segja) Þetta átti að vera einskonar tilraun til þess að láta hann hætta að tala OG hætta að meiða mig.... Þetta var SVOOO vont.... EN, þetta bar ekki tilskilinn árangur, onei, hann hélt áfram að toga og teygja á mér rassinn.... þegar hann LOKSINS hætti í rassinum á mér... lagðist hann hálfur ofan á mig og hóf að nudda á mér bakið með miklum tilþrifum OK... þetta var skrítið en ekki eins skrítið og þessi "rassa-SERÍMÓNÍA".... þar til að öxlunum var komið - Breath with your shoulder - BREATH WITH MY SHOULDER.... hvernig á ég að fara að því.... Ég var búin að fara í gegnum allt sem ég gat hugsað um erfitt og leiðinlegt til þess að missa mig ekki í taugaveiklað hláturskast... en þetta var alveg afskaplega erfitt... ég ranghvolfdi augunum eins og óþægur krakki, ofaní þetta fína gat þarna á bekknum... AF HVERJU VAR TÍMINN ALLT Í EINU SVONA LENGI AÐ LÍÐA...

Turn around!!! (kvíðastingur í magann og hjartað og bara út um allt, og þetta átti að vera DEKURNUDD) - ég sneri mér við og sá þá að hann stóð með ábreiðuna útbreidda, afskaplega prúður, með höfuðið falið á bakvið... Nú, okey... hann breiddi yfir mig, alveg upp að handarkrika og byrjaði svo að nudda á mér bringuna með orðunum Exhale, breath, open your heart... OG ÞARNA LÁ ÉG MEÐ ANDLITIÐ Á HONUM ALVEG OFAN Í MÍNU....

Tímanum lauk loksins....

Nuddarinn fíni bauð mér að liggja í smá stund á meðan hann færi fram og svo mætti ég klæða mig... brosandi tilkynnti hann mér þetta allt...
Ég rauk á fætur um leið og hann hvarf fram, hrundi næstum í gólfið vegna svima - leið eins og ég hefði nýlokið við að leika í pyndingarsenu í 24 - náði að grípa um brjósthaldarann minn áður en hurðin opnaðist og inn kom hann, SKÆLBROSANDI MEÐ VATN og sagði... energy water!!!

Restin er eins og í þoku, ég tók kurteisislega við vatninu, þakkaði kærlega fyrir mig og rauk í burtu - held ég hafi náð að klæða mig í restina af fötunum mínum áður en ég rauk út, en er þó ekki viss...

Fékk taugaveiklað hláturskast í bílnum og ákvað að fara ALDREI aftur í nudd....

Þegar heim var komið tók maðurinn minn á móti mér, afskaplega blíður og góður, börnin sofnuð og húsið aldeilis tilbúið í notalegt kvöld.... en.... hann er enn hlæjandi þannig að þetta kósíkvöld verður líklega að bíða betri tíma....

Kveðja úr suðri.


Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband