Þrándur í götu

Jæja, what can I do you for, spyr sólbakaður embættismaðurinn um leið og hann rennir sér fimlega á skrifstofustólnum frá kaffiskammtaranum að skrifborði sínu. Gegnt honum sitja tveir menn. Annar þeirra, íklæddur bol með áletruninni ,, ferðaklúbburinn allir í stuði”, tekur til máls með upptrekktum rómi.

Það er ekkert gert lengur, búið að lofa hinu og þessu, svo er bara dregið til baka endalaust! Það var búið að lofa hjólabrautum...en nei nei...ekkert, svo átti að setja upp hjólhýsageymslusvæði...en nei það er líka gufað upp í skíta...eða vindinn sko. Síðan Þrándur og kona hans fluttu í götuna, er bara allt á niðurleið og við viljum að þau finni sér annan samastað sem hentar þeim betur. Hann er dálítið sveittur á efrivörinni og hefur ekki fullkomið vald á röddinni.

Þrándur horfir á hann fremur sljór og segir rólega. Okkur konunni líður vel í Götugötu, við ætlum nú helst bara að búa þar takk.

Time out time out..ég er ekki að skilja...suðar sólksinsdrengurinn, Götugötu? Já gatan okkar heitir Götugata og þar hefur til þessa verið mjög gott að búa, klagar íbúinn. Ókei Þrándur sko, þú segir að þú og konan þín séuð ánægð í götu- þarna-götu, fyrirgefðu annars hvað heitir konan þín?

Hún heitir ekkert, eða ég eiginlega bara man það ekki, svarar Þrándur. Eftir að hún eignaðist tvíbbana Blóra og Böggul, þá einhvern vegin var hún alltaf kölluð mamma heima og svo konan annarsstaðar. Hvernig hefur konan það? Er ekki allt gott að frétta af konunni? Svo smám saman fórum við bara að nota það og það er alveg nóg, bara fínt. Konunni finnst það líka held ég.

Þarna sérðu, skrækir íbúinn, við fáum ekki fullan hverfisafslátt í félagsmiðstöðina og götugrillstyrkurinn hefur verið skertur af því að konan heitir ekki neitt og telst ekki með í höfðatölu! Hann ekur sér í sætinu svo skrjáfar í jogginggallanum. Við erum bara ekkert að fíla þau í götunni, þau passa alls ekki inn í myndina. Þau eiga, þú veist, fólksbíl og það er ekki einu sinni dráttarkúla á honum, ef þú skilur hvað ég meina.

Sportfelgur? Spyr embættismaðurinn.

Íbúinn hristir höfuðið raunamæddur.

Þetta er auðvitað ekkert að ganga svona, segir embættið, við getum reddað lóð í Þúfnahólum handa ykkur. Gott útsýni og já útsýnið rosa fínt. Þeim veitir ekki af að dreifa huganum þarna uppfrá, hefur verið pínu pirringur í mönnum, þið vitið hvernig þetta getur verið. Fínt að fá nýtt blóð í hverfið. Eitthvað verið að slást við hjónin Ljá og Freyju. Menn segja þau standa í vegi fyrir skipulagningu og skipulagðri nýtingu grænna svæði í hverfinu. Þau eru einhver svona náttúrufrík þið vitið, farið að nefna þau Fósturlandsins Freyju og Fjötur Ljá.

Fjötur Ljá? Sólskinsdrengurinn hefur náð athygli Þrándar.

Já þú veist, að vera einhverjum fjötur um Ljá, þú skilur, vera alltaf að böggast í einhverjum eða þannig.

Ætli hann sé þeim ekki frekar óþægur ljár í þúf... æ það skiptir ekki máli, ég flyt ekki og punktur og basta!

Skyndilega lifnar yfir embættisbrúnkunni, ok, ég get boðið góðan díl fyrir alla! Ég get reddað erlendum ríkisborgararétti fyrir ykkur hjón. Þú getur snarað Þrándur í götu bara yfir í T.G. sko Tí Dsjí maður eins og Dsjei Ar í Dallas og konan getur verið Dsjei Dí sko Jane Doe maður!

Allir sáttir?


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband